Gerist félagar

Vorstjarnan leitar nú til landsmanna um stuðning svo félagið geti enn betur styrkt hagsmuna- og réttindabaráttu almennings. Vorstjarnan er almennt félag, lýðræðislega uppbyggt. Öll félagsgjöld renna beint í gegnum félagssjóð og til samtaka og félaga hópa sem standa fjárhagslega veikt og eiga erfitt með að standa straum af öflugri hagsmunabaráttu. Það er einmitt helsti veikleiki lýðræðisins; að hin efnaminna geta illa haldið úti hagsmunabaráttu á meðan hin efnameiri hafa fullt bolmagn til þess.

Félagsfólk ákveður sjálft sín félagsgjöld. Lágmarkið er 2.500 kr. á ári en getur verið sama upphæð eða hærri, árlega, ársfjórðungslega eða mánaðarlega. Allir félagar hafa hins vegar sama atkvæðamagn á aðalfundi. Aðalfundur 2022 verður boðaður í haust.

Vorstjarnan styrkir leigjendur

Vorstjarnan hefur styrkt Samtök leigjenda við endurreisn samtakanna. Fyrst voru samtökin styrkt til að auglýsa og halda aðalfund og síðan til að halda opinn fund um leigjendamál og fyrir ýmsu öðru í tengslum við aukið starf samtakanna.

Vorstjarnan styrkir útlagðan kostnað félaga og samtaka en ekki launakostnað. Allt starf Samtaka leigjenda hefur verið unnið í sjálfboðavinnu.

Sósíalistar styrkja Vorstjörnuna

Fyrir þingkosningar haustið 2021 lýsti Sósíalistaflokkurinn því yfir að flokkurinn myndi nýta þá styrki sem hann fengi úr ríkissjóði annars vegar til að styrkja Alþýðufélagið, fjárhagslegan bakhjarl Samstöðvarinnar, og hins vegar Vorstjörnuna, styrktarsjóð þeirra sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að heyja réttlætis- og hagsmunabaráttu.

Sósíalistar hafa frá 2018 látið framlag Reykjavíkurborgar til flokksins renna til Vorstjörnunnar.

Framlag ríkisins til Sósíalistaflokksins var rúmlegar 26 m.kr. á þessu ári og runnu því rétt rúmlega 13 m.kr. til Vorstjörnunnar. Samtals hefur flokkurinn því styrkt Vorstjörnuna um rúmar 14,8 m.kr. í ár.