Guðmundur Hrafn fær Vorstjörnuna

Vorstjarnan, styrktarsjóður fyrir hagsmuna- og réttlætisbaráttu almennings, veitti í dag Guðmundi Hrafni Arngrímssyni, formanni Samtaka leigjenda, Vorstjörnuna, viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu leigjenda.

Guðmundur Hrafn hefur vakið athygli fyrir skelegga framgöngu og málflutning á þessu ári. Hann hefur víða farið og skilgreint stöðu þeirra á þann hátt að óréttlætið verður auðskilið öllum. Auk greinaskrifa og viðtala hefur Guðmundur Hrafn haldið úti þættinum Leigjandinn á Samstöðinni, þar sem hann fjallar um leigumarkaðinn og réttindi leigjenda og ræðir við leigjendur, sérfræðinga og baráttufólk hér heima og erlendis. Auk þessa hefur Guðmundur Hrafn endurreist Samtök leigjenda ásamt öðru stjórnarfólki og sjálfboðaliðum, staðið m.a. fyrir fundum og Degi leigjenda, útbúið reiknivél fyrir viðmiðunarverð húsleigu og safnað að félaginu á annað þúsund félagsmanna. Í haust munu samtökin standa fyrir norrænu leiguþingi á Íslandi ásamt leigjendasamtökum á Norðurlöndunum.

„Meginverkefni Vorstjörnunnar er að styrkja félög og samtök sem berjast fyrir hagsmunamálum almennings og þeirra hópa sem ekki standa sterkt fjárhagslega,“ segir Védís Guðjónsdóttir, formaður stjórnar Vorstjörnunnar. „En þótt skipulags starf almennings og samtakamáttur fjöldans sé lykilatriði baráttunnar þá vitum við líka að einstaklingarnir skipta máli, frumkvæði þeirra og seigla. Það er of lítið gert af því að heiðra fólk sem gefur tíma sinn, vit og dugnað til að reka réttlætisbaráttu alþýðunnar. Við viljum því veita Vorstjörnuna einstaklingum sem hafa haft áhrif á baráttuna á sama tíma og við viljum efla baráttuna með því að styrkja félög og samtök með fé.“

Védís segir að sé sannarlega við hæfi að veita Guðmundi Hrafni fyrstu Vorstjörnuna. „Málefni leigjenda hafa verið meira í deiglunni í ár en um langan langan tíma,“ segir hún. „Húsnæðismálin voru aðalmál kosningabaráttunnar fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor og það var ekki síst fyrir málflutning Leigjendasamtakanna og ekki síst Guðmundar Hrafns.“

Verðlaunagripinn Vorstjörnuna gerði listakonan Hulda Hákon. Vorstjarnan er gullin stjarna mótuð af spýtnarusli. 

„Þegar ég var í listnámi í New York byrjaði ég að týna saman svona spýtnarusl á byggingasvæðum og móta úr því myndverk, í fyrstu vegna þess að ég átti engan pening til að kaupa annað efni. Síðan hef ég notað svona spýtur í verkin mín,“ segir Hulda. „Vorstjarnan er endurgerð á verki sem ég gerði í New York á þessum árum og sem ég kallaði Pólstjörnuna, eða The North Star eins og Bandaríkjamenn kalla þá stjörnu. Pólstjarnan varð hins vegar eftir í New York, en er nú orðin að Vorstjörnu á Íslandi.“

Guðmundur Hrafn var hrærður þegar hann tók við Vorstjörnunni ásamt dóttur sinni, Arlet Sögu. Nærvera hennar var vel við hæfi, enda vita þau sem taka þátt í réttlætisbaráttu að það er oftast gert á kostnað tíma með fjölskyldu og vinum.

„Ég er náttúrlega orðlaus, stoltur og sæll,“ sagði Guðmundur Hrafn. „Mér verður hugsað til þeirra sem hafa drifið áfram baráttu leigjenda í gegnum tíðina en fengu kannski aldrei sérstakar þakkir fyrir. Samfélagið þakkaði Jóni frá Pálmholti til dæmis aldrei fyrir hans stórkostlega framlag og ekki heldur fólkinu sem stofnaði Samtök leigjenda eftir hrun og vann frábært starf; fólk eins og Ásta Hafberg, Jóhann Már Sigurbjörnsson og ekki síst Hólmsteinn Brekkan. Það er margt fólk sem kyndir elda baráttunnar, vinnur verk sín í hljóði og án launa og fær aldrei viðurkenningu fyrir. Ég tek við Vorstjörnunni fyrir hönd þessa fólks.“

Vorstjarnan styrkir Samtök leigjenda um fimm milljónir

Vorstjarnan hefur styrkt Samtök leigjenda um fimm milljónir króna til að efla hagsmunabaráttu leigjenda.

Vorstjarnan er styrktarsjóður sem styður hin verr settu í að byggja upp og reka réttindabaráttu sína, þá hópa sem ekki hafa fjárhagslega stöðu til að reka sína eigin hagsmunabaráttu. 

„Besta leiðin til að bæta samfélagið okkar er að bæta stöðu þess fólks sem má þola mestan órétt og býr við verstu kjörin,“ segir Védís Guðjónsdóttir, formaður stjórnar Vorstjörnunnar. „Markmið Vorstjörnunnar er að styðja þessa hópa í sinni baráttu svo þau geti mótað kröfur sínar, lagt þær fram og knúið í gegn. Það bætir bæði stöðu viðkomandi hópa, eflir fólkið sem tekur þátt í baráttunni og og bætir um leið samfélagið fyrir okkur öll.“

Védís segir að endurreisn Samtaka leigjenda snemma síðasta vetur hafi haft góð áhrif. „Raddir leigjenda hafa heyrst eftir langt hlé og fleiri hafa áttað sig á neyðarástandinu í húsnæðiskerfinu og hvernig það leikur leigjendur,“ segir Védís. „Til að fylgja þessu eftir þurfa samtökin að taka næstu skref, eflast og styrkjast. Þess vegna leggur Vorstjarnan sitt á vogarskálarnar. Það er það minnsta sem við getum gert.“

Samtök leigjenda hafa verið að fæðast og deyja í hundrað ár á Íslandi. Fyrst var reynt að stofna samtök leigjenda á þriðja áratug síðustu aldar, síðan á eftirstríðsárunum en 1979 tókst að koma Leigjendasamtökunum á legg með stuðningi forystufólks úr verkalýðshreyfingunni og fleira góðu fólki. Starfið fjaraði hins vegar út á síðast áratug síðustu aldar. Eftir Hrun voru Samtök leigjenda stofnuð og voru öflug í fáein ár en koðnuðu niður. Reynt var að endurvekja samtökin 2018 en það tókst ekki. Þau voru síðan endurvakin í nóvember í fyrra.

„Þessi saga sýnir hversu viðkvæm þessi barátta er,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda. „Lög um leigusamninga voru fyrst sett eftir baráttu Leigjendasamtakanna 1979. Leigjendur hafa ekki fengið neinar réttarbætur nema fyrir eigin baráttu. Forsenda þess að aðstæður leigjenda batni er barátta þeirra sjálfra.“

Í tengslum við gerð lífskjarasamninganna lofaði ríkisstjórnin að styðja samtök leigjenda en þetta hefur verið svikið. „Þessi myndarlegi styrkur kemur því eins og himnasending,“ segir Guðmundur Hrafn. „Við höfum rekið öfluga baráttu og kynnt ýmsar nýjungar á þeim stutta tíma sem liðinn er frá endurreisn. Með þessu framlagi getum við fært okkur upp á næsta borð og stóreflt baráttuna.“

Védís segir að meginregla Vorstjörnunnar sé að styrkja hagsmuna- og réttindabaráttu þeirra hópa sem standa illa fjárhagslega. Hagsmunafélög hinna betur settu eiga auðvelt með að ná í gegn með sín mál og hagsmunasamtök hinna ofurríku eru allt um liggjandi. „Vorstjarnan getur ekki læknað þetta ástand,“ segir Védís, „en Vorstjarnan getur samt gert gagn. Lítið fé sem fer í réttláta baráttu nýtist miklu betur en mikið fé sem notað er til að halda fram rangindum og lygum.“

Vorstjarnan er almennt félag þar sem félagarnir móta stefnuna. Allt fólk getur gengið í Vorstjörnuna og valið hversu mikið þau leggja til sjóðsins. Það má skrá sig á vorstjarnan.is. Styrkir eru veittir út úr sjóði sem félagsmenn byggja upp með framlögum sínum og með frjálsum framlögum auk þess sem Sósíalistaflokkurinn leggur til Vorstjörnunnar helminginn af framlagi ríkissjóðs til flokksins og allt framlag Reykjavíkurborgar. Borgarfulltrúar flokksins gefa auk þess hluta launa sinna til Vorstjörnunnar. Vorstjarnan styrkir félög og samtök til að standa undir útlögðum kostnaði, ekki til að greiða starfsfólki laun.

„Ég get ekki annað en hvatt fólk til að leggja Vorstjörnunni lið,“ segir Guðmundur Hrafn. „Vorstjarnan hefur stutt endurreisn Samtaka leigjenda og gerir það nú enn myndarlegar. Ég veit að þessi styrkur mun styrkja Samtök leigjenda og bæta samfélagið. Og það veitir ekki af.“

MYND: Védís Guðjónsdóttir, formaður stjórnar Vorstjörnunnar, afhendir Guðmundi Hrafni Arngrímssyni, formanni Samtaka leigjenda, fimm milljón króna styrk til samtakanna.