Sanna og Trausti styrkja Vorstjörnuna

Borgarfulltrúar Sósíalista, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon, gefa hvort um sig 100 þús. kr. mánaðarlega til Vorstjörnunnar, styrktarsjóðs sem styður við réttlætis- og hagsmunabaráttu hópa sem standa illa fjárhagslega.

„Laun stjórnmálafólks eru of há á Íslandi og sósíalistar hafa lagt til að þau verði lækkuð,“ segir Sanna. „Þar til okkur tekst að lækka launin almennt kjósum við að lækka laun okkar sjálfra með þessum hætti, flytja fé sem við fáum til persónulegra nota inn í hagsmunabaráttu fólks sem stendur miklu verr en við.“

Styrkur borgarfulltrúanna er samanlagt 2,4 m.kr. á ári. Hann kemur til viðbótar við framlag borgarsjóðs til Sósíalistaflokksins, sem er rúmar 4,5 m.kr. á ári, en flokkurinn færir þetta framlag inn í Vorstjörnuna. Samanlagt má því rekja rúmlega 6,9 m.kr. framlag í Vorstjörnuna til borgarstjórnarflokksins.

„Reykjavíkurborg styrkir flokka og stjórnmálafólk með þeim rökum að hún sé að örva lýðræðið í borginni. Með því að styrkja hagsmuna- og réttlætisbaráttu hópa sem eiga í erfiðleikum með að halda uppi sinni baráttu eflum við lýðræðið miklu betur en að eyða þessum peningum í sjálf okkur eða flokkinn,“ segir Trausti. 

Þau Sanna og Trausti benda á að fátækt fólk reki sínar hagsmunabaráttu í samkeppni við þau sem hafa mikil fjárráð, ekki síst hagsmunasamtök auðugustu fjármagnseigendanna og allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna. Það segir sig sjálft að hin fátæku og valdalaus verður oft undir í þessari baráttu. Auðvaldið valtar yfir allt þótt það sé að boða lygar á meðan að fátæka fólkið reynir að koma sannleikanum á framfæri.

„Því miður reyna fjölmiðlar lítið að vega upp þennan aðstöðumun,“ segir Sanna. „Hagsmunasamtök allra ríkasta fólksins, kannski í reynd aðeins 50 til 60 manns, drottna yfir allri umræðu í landinu. Raddir fórnarlamba þeirra, hinna fátæku og valdalausu, heyrast varla. Ef fjölmiðlar væru lýðræðislegir myndu þeir alla daga segja frá kröfum og sjónarmiðum almennings en geta hugmynda hinna ríku einu sinni eða tvisvar á ári.·

Eins og fram hefur komið leggur Sósíalistaflokkurinn helminginn af framlagi ríkissjóðs til flokksins inn í vorstjörnuna, rétt rúmar 13 m.kr. á þessu ári. Hinn helmingurinn fer til uppbyggingar Samstöðvarinnar. Samanlagt framlag Sósíalistaflokksins og borgarfulltrúa hans til Vorstjörnunnar er því rúmlega 19,9 m.kr.

„Vorstjarnan styrkti Samtök leigjenda um fimm milljónir króna um helgina og mun halda áfram að styrkja félög og samtök almennings,“ segir Védís Guðjónsdóttir, formaður stjórnar Vorstjörnunnar. „Við höfum byggt upp félagsaðstöðu í Bolholti 6 þar sem samtök og félög fólks getur fengið skrifstofu- og fundaraðstöðu og við eigum tæki og tól til funda og mótmæla sem við lánum fólki í réttlætisbaráttu. Auk þess stendur öllu fólki í réttlætisbaráttu til boða að búa til hlaðsvarps-sjónvarpsþætti sem Samstöðin dreifir. Vorstjarnan er í mótun og ég hvet fólk til að ganga til liðs við félagið og taka þátt í þeirri mótun.·

Áhugasamir geta skráð sig sem félaga í Vorstjörnunni á vorstjarnan.is og valið félagsgjöld, bæði upphæð og hversu ört þau eru innheimt. Óháð félagsgjöldum hefur hver félagi eitt atkvæði. Aðalfundur Vorstjörnunnar verður haldinn í haust, verður auglýstur nánar.