Aðalfundur 30.6.2025
Í samræmi við 6. gr. samþykkta er boðað til aðalfundar Vorstjörnunnar mánudaginn, 30. júní, kl. 17:30 í húsnæði samtakanna að Bolholti 6. Dagskrá er samkvæmt samþykktum félagsins.
Athugið: í ljósi þess að upphaflegum vef Vorstjörnunnar og félagaskrá var stolið um mánaðamótin maí/júní, 2025, hefur stjórn félagsins ekki aðgang að henni.
Fundarboð aðalfundar var því sent á þá félaga sem skráðu sig í félagið á þessari vefsíðu, undir léni Vorstjörnunnar, sem sett var upp til að geta boðað aðalfundinn.
Sjá fundargerð aðalfundar hér.
Skýrsla fráfarandi formanns Vorstjörnunnar, Védísar Guðjónsdóttur, flutt á aðalfundi félagsins þann 30. júní, 2025:
Ágæta Vorstjörnufólk
Vorið 2021 hófst vegferð Vorstjörnunar. Hugmyndin var frá upphafi að byggja upp styrktarsjóð sem styddi hin verr settu í að byggja upp og reka hagsmunabaráttu sína í skipulögðum hópum, félögum og samtökum. Vera vettvangur fyrir meðal annars þau sem vildu skipuleggja sig án þess að vera tengd inn í og við stjórnmálaflokk.
Þá þegar var til vísir að styrktarsjóði sem bar nafnið Maístjarnan. Hans tilurð var sú að eftir borgarstjórnarkosningar 2018 ákváðu félagar í sósíalistaflokknum í samráði við Sönnu Magdalenu Mörtudóttur að leggja fé sem barst frá borginni í sérstakan sjóð til styrkingar verr settra hópa sem fékk heitið Maístjarnan. Frá upphafi eru einstaklingar sem hafa staðfastlega greitt frjáls framlög inn í sjóðin eftir getu en skömmu eftir að sjóðurinn varð til ákvað Sanna að leggja hluta launa sinna í Maístjörnuna. Þegar kom að því að skrá Maístjörnuna hjá ríkisskattstjóra þá var það nafn upptekið og eftir smá rannsóknarvinnu á skráðum nöfnum var niðurstaðan að breyta nafninu í Vorstjarnan sem er að mínu mati gott nafn og lýsandi.
Í upphafi vorum við skráð í stjórn, ég Védís Guðjónsdóttir formaður, Sigrún E. Unnsteinsdóttir gjaldkeri og Viggó Karl heitinn Jóhannsson ritari.
Fyrir alþingiskosningar haustið 2021 ákváðu félagar í Sósíalistaflokknum, á Sósíalistaþingi, að styrkja Vorstjörnuna með helming af því fé sem ríkissjóður veitir stjórnmálaflokkum árlega, um þetta er til stjórnmálaályktunin “Burt með elítustjórnmál” sú ákvörðun var svo staðfest á sameiginlegum fundi stjórna Sósíalistaflokksins skömmu síðar, það var rausnarlega gert og varð til þess að strax árið 2021 gerði Vorstjarnan leigusamning um rúmlega 220 fm mjög hrátt pláss í Bolholti 6, og hér hefur síðan verið þungamiðjan í starfsemi Vorstjörnunar.
Hér í Bolholti hafa önnur félög verið stofnuð og ýmsir hópar hafa fengið hér aðstöðu til að funda og skipuleggja sig. Auk þess á Vorstjarnan búnað til útláns, hljóðkerfi og tjald sem hefur nýst ýmsum en mörg ykkar þekkja það frá því það gekk undir nafninu Samstöðutjaldið sem veitti palestínskum flóttamönnum skjól í nístingskulda á Austurvelli veturinn 2023-2024. Samstöðin er líka til húsa í Vorstjörnunni en umræða um samfélagsmál, stjórnmál og menningu hefur náð þar nýjum hæðum.
Árið 2022 samþykkti Vorstjarnan tvo fjárstyrki, annarsvegar til Pepp, samtaka fólks í fátækt, sem snéri að því að þau gætu fjármagnað skráningu hjá ríkisskattstjóra og hinsvegar veglegur styrkur til Samtaka leigjenda sem var að endurstofnsetja sig þetta árið eftir margra ára lágdeyðu.
Eins og allir muna þá voru árin 2020 til 2022 erfið ár, það var heimsfaraldur í gangi og miklar takmarkanir á samkomum fólks. Þetta ástand hefti mjög félagsstarf félagasamtaka. Á stjórnarfundi 1. júní 2022 baðst Sigrún Unnsteinsdóttir undan frekari stjórnarstörfum og lausnar frá gjaldkera embættinu, hún vildi taka sér hlé frá félagsstörfum enda hafði hún þá lagt ómældan tíma í og unnið stórvirki í húsnæðinu, bæði með endurhönnun á rýminu og með að vera vakin og sofin yfir því að koma því í nothæft ástand, jafnvel þó margir aðrir hafi lagt hönd á plóg þá bar hún hitan og þungan af því verki . Á þeim sama stjórnarfundi var samþykkt að Sara Stef. Hildar tæki við sem gjaldkeri Vorstjörnunar og hefur hún sinnt því starfi með miklum sóma síðan.
2023 bættist við húsnæði Vorstjörnunar þegar við tókum á leigu lítið verslunarrými við hlið aðalrýmisins í Bolholti, en auk þess höfum við svo bætt við geymsluplássi.
Vorstjarnan hefur framleigt aðstöðu til Sósíalistaflokksins, Alþýðufélagsins fyrir hönd Samstöðvarinnar og Leigjendasamtakanna og hafa þessi félög greitt lága leigu fyrir aðstöðu í húsinu. Auk þeirra hafa Pepp, samtök fólks í fátækt og Blokkinn, félag leigjenda í félagsbústöðum heimilisfestu í Bolholti 6.
Það er rétt að geta þess að ekki hefur náðst að halda aðalfund í Vorstjörnunni fyrr en nú, sem er miður. Ýmsar ástæður eru fyrir því, misgóðar. Sigrún hætti afskiptum af félaginu sumarið 2022. Sama ár dró Viggó Karl sig mikið til úr félagslegum störfum. Árið 2023 voru haldnir hugarflugsfundir með það að markmiði að fjölga félagsfólki, halda stóran aðalfund og endurnýja stjórn, það gekk ekki vel á þeim tíma og voru skráðir félagar því enn bara um 20 manns á fyrri hluta þessa árs.
Í lok 2023 var farið að bera talsvert á heilsubresti hjá mér sem varð til þess að ég dró mig mikið til úr sjálfboðaliðsstarfi hverju nafni sem það nefndist.
Viggó Karl lést í lok síðast árs, en í kjölfarið hafði Sigrún samband og hafði áhyggjur af skráningum stjórnarmanna hjá RSK, þar sem hún var enn skráð stjórnarmaður hjá Vorstjörnu. Það er óheppilegt að ekki hafi verið uppfærðar skráningar hjá RSK. Skipti á prókúruhafa hjá banka sumarið 2022 höfðu gengið snurðulaust fyrir sig og án athugasemda. Við höfum skilað inn ársreikningum hjá Ríkisendurskoðun sem við fengum aftur frá þeim með þeim skilaboðum að ársreikningar almennra félaga væru ekki skilaskildir. Það er handvömm að huga ekki að réttri skráningu stjórnarmanna hjá RSK og er hér með beðist formlega afsökunar á því.
Ýmislegt óvænt hefur gengið á síðan í vor. Í fjölmiðlum og á umræðuvetvangi á netinu hafa ratað söguskýringar sem eiga sér hvergi stað í raunheimum og hefur gengið örðulega að kveða þær niður. Við höfum þurft að sinna samskiptum við bæði blaðamenn og lögmenn.
Aðgangur okkar, sem stýrum Vorstjörnunni að vefsíðu félagsins og félagatali, sem og pósthólfi um tíma, var lokað og aðgangurinn fluttur til annara aðila. Við gátum endurheimt pósthólfið og fórum svo auðvitað fram á að vefsíðunni og félagatalinu væri skilað, en við höfum ekki verið virt svars með það.
Því var búin til ný síða í snarheitum og fólk beðið að skrá sig á ný svo við gætum sent fundarboð á þennan aðalfund. Eitt félag af þeim sem nýta húsnæðið hætti að virða bókunarkerfi fyrir húsið sem virkaði vel árum saman, það olli umsvifalaust ruglingi og árekstrum og nú er líka svo komið að aðgengi okkar að okkar eigin húsnæði hefur verið skert, skipt var um skrár í skjóli nætur í stærsta hluta húsnæðis Vorstjörnunar og millihurðum læst svo að fundaraðstaða og kaffiaðstaða er lokuð fyrir alla sem eiga heimilisfestu hér í Vorstjörnunni utan Sósíalistaflokksins, þar með talið okkur Vorstjörnuna sem erum leigutakar að þessu húsnæði. Samvinna og sambýli af þessu tagi byggja á félagslegu trausti sem hefur verið gott fram að þessu. Núna er það traust brostið.
Góðu fréttirnar eru að félögum í Vorstjörnunni hefur fjölgað all verulega síðustu daga. (eins og sjá má á mætingunni á þennan fund)
Ég ber þá von í brjósti að kynntar lagabreytingar verði samþykktar, þær munu styrkja verulega félagslega undirstöðu Vorstjörnunar svo að hún geti haldið áfram af krafti nauðsynlegum stuðningi við hin verr settu, í að byggja upp og reka hagsmunabaráttu sína í skipulögðum hópum, félögum og samtökum með og/eða án beinna tengsla við stjórnmálaflokka.