1. gr.
Heiti
Félagið heitir Vorstjarnan.
2. gr.
Tilgangur
Tilgangur félagsins er að styrkja og efla rödd jaðarsettra hópa svo að þeir hópar nái að nýta sér verkfæri lýðræðis.
3. gr.
Starfsemi
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því m.a. að reka félagsheimili og veita aðstöðu fyrir fólk til þess að koma saman og eiga útbúnað til útláns fyrir minni hópa, sbr. einnig 9. gr.
4. gr.
Aðild
Félagsaðild er frjáls og almenn.
Ritari stjórnar hverju sinni heldur félagaskrá með nafni, kennitölu og netfangi auk annarra upplýsinga sem að mati stjórnar samrýmist lögum um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga hverju sinni.
5. gr.
Starfstímabil
Starfstímabil félagsins og reikningsár er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.
6. gr.
Aðalfundur
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. júlí ár hvert og skal boða til hans með 2ja vikna fyrirvara hið minnsta og með sannanlegum hætti. Aðeins félagsmenn sem eru skuldlausir mega vera þátttakendur í aðalfundi. Fylgi tillögur til lagabreytinga ekki fundarboði skulu þær birtar félagsmönnum með a.m.k. viku fyrirvara til þess að taka megi þær fyrir. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum. Tillögur um breytingar á samþykktum þessum þurfa þó ⅔ mættra félagsmanna.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skrifleg skýrsla framkvæmdarstjórnar lögð fram.
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
4. Lagabreytingar.
5. Ákvörðun félagsgjalds komandi starfsárs.
6. Kosning stjórnar og 2ja félagskjörinna skoðunarmanna reikninga.
7. Önnur mál.
7. gr.
Stjórn
Stjórn félagsins skal skipuð 17 félagsmönnum kjörnum til 2ja ára. Á ójöfnum árum skulu 9 kjörnir og á jöfnum árum skulu 8 kjörnir. Árlega í kjölfar aðalfundar skiptir stjórn með sér verkum og kýs formann, varaformann, ritara, vararitara og gjaldkera og myndar þessi hópur framkvæmdastjórn. Enginn má sitja lengur í stjórn en 12 ár. Enginn má gegna hlutverki formanns lengur en 8 ár.
Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda og framkvæmdastjórn milli stjórnarfunda. Þegar vísað er til stjórnar í samþykktum þessum er átt við aðalstjórn nema tekið sé fram að átt sé við framkvæmdarstjórn.
Formaður, eða annar sem hann felur það hverju sinni, boðar til funda. Firmaritun er í höndum framkvæmdarstjórnar.
Til þess að vera ályktunarbær þarf að lágmarki helmingur framkvæmdarstjórnar að vera mættur.
8. gr.
Félagsgjöld
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Heimilt er að innheimta félagsgjöld allt að mánaðarlega.
9. gr.
Fjárhagur
Auk félagsgjalda koma tekjur félagsins frá frjálsum framlögum. Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið til þess að styrkja starf grasrótarhópa sem einbeita sér að hlutskipti minnihlutahópa og þeirra sem vantar rödd í samfélaginu.
Gjaldkeri hefur það verkefni að sjá um daglegt bókhald og gera nauðsynleg fjárhagsyfirlit. Gjaldkeri skal fylgja góðri bókhaldsreglu og hafa góða yfirsýn yfir stöðu sjóða félagsins eins og hún er á hverjum tíma. Heimilt er að ráða löggiltan endurskoðanda sem gerir ársreikninga fyrir stjórn sem ber á þeim ábyrgð.
10. gr.
Slit
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með ⅔ atkvæða þeirra sem mættir eru, enda hafi tillögu þar um verið getið í fundarboði. Renna eignir þess til þeirra almennu grasrótarsamtaka sem fundurinn samþykkir en grasrótarsamtök eru samkvæmt orðabókarskýringu Árnastofnunar „samtök fólks sem berjast fyrir ákveðnum málstað utan hefðbundinna stjórnmála.“
Ákvæði til bráðabirgða
Kjör á fyrsta aðalfundi samkvæmt breyttum samþykktum
Þrátt fyrir 7. gr. skulu á fyrsta aðafundi, þar sem lög þessi gilda, 2025, alls 17 félagar kjörnir i stjórn, þ.e. 9 stjórnarmenn til 2ja ára og 8 til eins árs.
Gildistaka
Samþykktir þessar, svo breyttar, taka þegar gildi og skulu stjórn og skoðunarmenn reikninga skv. 6. tl. 2. mgr. 6. gr. kjörin í samræmi við það á sama aðalfundi, 30. júní 2025.
Samþykkt á aðalfundi félagsins þann 30. júní 2025